Tag Archives: Réttarhöld

2472.

3 Júl

„Af hverju eru breskir málafærslumenn alltaf klæddir í svartar skikkjur?“

„Ég held að þeir hafi byrjað að nota þær snemma á 18. öld sem sorgarbúning eftir að Anna drottning dó.“

„En af hverju eru þeir enn í svona skikkjum?“

„Nú, ég veit ekki betur en hún sé enn dáin.“

Auglýsingar

2417.

2 Júl

Bóndi nokkur hafði höfðað mál á hendur nágranna sínum vegna þess að kýrnar hans höfðu komist inn á túnið og eyðilagt grasið. Aðalvitni bóndans, vinnumaðurinn, var nú í vitnastúkunni og verjandinn var að spyrja hann spjörunum úr.

„Jæja, Halldór, það getur orðið býsna hvasst þarna í dalnum, er það ekki?“

„Ojú.“

„Og verður ekki stundum svo hvasst að grasið leggst flatt á túnunum?“

„Það getur komið fyrir.“

„Ekki ósvipað því sem gerðist með grasið á túni húsbónda þíns, getur það ekki verið?“

„Nei, það er hreint ekki ólíkt.“

Verjandinn leit glottandi á dómarann og rak smiðshöggið á vörnina: „Og hvernig geturðu þá verið svona viss um að það hafi verið kýr skjólstæðings míns, sem ullu tjóninu?“

„Ja, það er nú vegna þess að ég hef aldrei vitað vindinn skilja eftir sig mykjuklessur.“

2377.

1 Júl

Dómarinn: „Umferðarlögregluþjónninn segir að þú hafir hæðst að sér.“

Sakborningurinn: „Nei, það er ekki alveg rétt. Hann las yfir hausamótunum á mér alveg eins og konan mín gerir og ég gleymdi mér og sagði: „Já, ástin mín.““

2376.

1 Júl

Vitnið: „Frá barnæsku hef ég átt sannleikann að lífsförunaut.“

Ákærandinn: „Ber að skilja þetta svo að þú sért nýorðinn ekkjumaður?“

2375.

1 Júl

„Jæja, ungfrú góð,“ sagði sækjandinn, „viltu vera svo væn að segja okkur nákvæmlega hvað sakborningurinn sagði við þig.“

„Æ, það get ég ekki með nokkru móti!“ sagði vitnið og roðnaði eins og karfi. „Það var svo dónalegt!“

„Allt í lagi,“ sagði sækjandinn, „þá skaltu bara skrifa það sem hann sagði á miða sem ég get svo sýnt kviðdómendum.“

Stúlkan féllst á þetta, skrifaði eitthvað á blað og rétti sækjandanum það. Hann leit á blaðið og greip andann á lofti. „Getur það verið að sakborningurinn hafi farið fram á þetta í alvöru?“

„Já, það gerði hann.“

„Nú, jæja! Dómvörður, sýndu kviðdómendum þennan miða.“

Dómvörðurinn rétti formanni kviðdómsins miðann. Hann las hann stóreygur og rétti svo næsta manni hann. Þannig gekk miðinn frá einum kviðdómandanum til annars og hver einasti þeirra roðnaði og blánaði eða gapti af undrun og hneykslun. Að lokum barst miðinn til seinasta kviðdómandans, sem hafði steinsofið meðan á öllu þessu gekk. Sessunautur hans gaf honum olnbogaskot og rétti honum svo miðann og hvíslaði um leið: „Frá stúlkunni í vitnastúkunni.“

Kviðdómandinn las miðann, leit á stúlkuna, setti upp ánægjubros og stakk miðanum í vasann.

2337.

30 Jún

„Hvernig geturðu verið viss um að endurnar sem fundust heima hjá skjólstaeðingi mínum séu endurnar þínar?“ spurði verjandinn.

„Auðvitað þekki ég mínar eigin endur,“ sagði gamli bóndinn og lýsti síðan útliti andanna í smáatriðum. Þegar hann hafði lokið máli sínu sagði verjandinn:

„Nei, heyrðu nú, þessi lýsing gæti átt við flestar endur. Ég á sjálfur einmitt svona endur heima hjá mér.“

„Það held ég geti verið,“ sagði bóndinn. „Þetta eru ekki einu endurnar sem stolið hefur verið frá mér nýlega.“

2336.

30 Jún

Sækjandinn var að spyrja vitnið spjörunum úr.

„Og þú segir að þú hafir farið að heimsækja Guðfinnu þann 14. júlí?“ sagði hann.

„Ég mótmæli þessari spurningu,“ sagði verjandinn. Af þessu spunnust orðaskipti og deilur um lögfræðileg atriði, sem loksins tókst að leysa úr eftir klukkutíma. Dómarinn leyfði spurninguna á endanum og sækjandinn sneri sér aftur að vitninu.

„Ég endurtek þá spurninguna,“ sagði hann. „Þann 14. júlí fórstu að heimsækja Guðfinnu. Hvað sagði hún þá?“

„Hún sagði ekkert,“ svaraði vitnið. „Hún var ekki heima.“